Steingrímur J. er enn í formannssætinu

Fyrir tveimur mánuðum tilkynnti Steingrímur J. Sigfússon óvænt að hann yrði ekki í kjöri til formanns VG á landsfundi sem halda skyldi innan fárra daga. Katrín Jakobsdóttir varaformaður var í hans stað kosin með lófataki. Álitsgjafar tóku strax að ræða breytinguna og endurnýjunina sem með þessu hefði orðið á íslenskum stjórnmálum. Þeir voru þó til sem skildu að hér var ekki endilega allt sem sýndist. Hinn nýi formaður hafði allan sinn stjórnmálaferil greitt atkvæði eins og sá gamli. Ekki var vitað um neinn ágreining þeirra þann áratug sem þau höfðu verið formaður og varaformaður. Og við bættist að íslenskir vinstrimenn höfðu áður leikið þann leik að gera ungan geðfelldan mann að formanni, til dæmis hinn þrítuga Ragnar Arnalds árið 1968, þótt Lúðvík Jósepsson og Magnús Kjartansson hefðu þá verið helstu ráðamenn flokksins.

Fyrirsjáanleg viðbrögð

Hinar talandi stéttir brugðust við slíkum ábendingum eins og allir vissu að þær myndu gera. Þær froðufelldu yfir „kvenfyrirlitningunni“, þó ekki hafi fylgt  sögunni hvort það hefði þá jafnframt verið karlfyrirlitning að minna á formennsku hins unga Ragnars árið 1968. Efnisleg andmæli við athugasemdunum voru hins vegar haldlítil, enda hefði þá varla þurft að grípa til þess áróðursbragðs að saka neinn um „kvenfyrirlitningu“, en slík upphrópun er fyrst og fremst notuð þegar önnur haldbærari rök eru ekki tiltæk.

„Í fjarveru hennar gegnir...“

Þegar ráðherra fer úr landi þarf annar ráðherra að „gegna“ embætti hans hér innanlands á meðan. Kemur það jafnan í hlut samflokksmanns ráðherrans. Á því hefur verið gerð sú undantekning að flokksformenn hafa leyst hvor annan af. Á dögunum fór Jóhanna Sigurðardóttir í opinbera heimsókn til Kína. Var þá um leið birt auglýsing í Lögbirtingablaðinu. Þar sagði orðrétt: „Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra er á förum til útlanda. Í fjarveru hennar gegnir Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra störfum forsætisráðherra.“ Með öðrum orðum, fyrrverandi en ekki núverandi formaður VG leysir forsætisráðherrann af.

Og hver situr í formannssætinu?

Og fleira er óbreytt. Á ríkisstjórnarfundum situr forsætisráðherra við borðsendann en honum á hægri hönd formaður hins stjórnarflokksins. Þar sat því fyrstu fjögur ár ríkisstjórnarinnar Steingrímur J. Sigfússon. En núna, eftir að vinstrigrænir hafa fengið nýjan formann, sem er sko „ekkert gluggaskraut“ heldur „raunverulegur formaður“, eins og sárhneykslaðir álitsgjafar fullyrtu á dögunum, hver situr þá í formannssætinu á ríkisstjórnarfundum? Jú, viti menn, Steingrímur J. Sigfússon eins og áður.

Það „tók því“ ekki

Morgunblaðið, sem eitt fjölmiðla tók eftir þessu, spurði Katrínu Jakobsdóttur hverju þetta sætti. Hún sagði að ekki hefði þótt „taka því fyrir tvo mánuði“ að hún yrði staðgengill forsætisráðherra eða settist í formannssæti á ríkisstjórnarfundum. Nú er henni auðvitað vorkunn að finna á þessu frambærilegar skýringar. En má maður spyrja, „taka því“ hvað? Það að vera „staðgengill forsætisráðherra“ er ekki daglegt starf, staðgengillinn hefur ekki sérstaka skrifstofu eða starfsfólk. Hann er aðeins formlegur staðgengill þegar forsætisráðherra fer af landi brott, sem í tilfelli Jóhönnu Sigurðardóttur er fátítt. Það er auglýst í Lögbirtingablaðinu hver fari formlega séð með forsætisráðuneytið í tiltekna fáa daga, og meira þarf ekki að gera. Þetta er fyrst og fremst táknrænt. Sama á við um hvar menn sitja á ríkisstjórnarfundum. Það er ekki mikið mál að skipta um stól. Það er ekki margra mánaða framkvæmd að setjast við borð. Það „tekur því“ alveg að setjast á réttan stað, þó menn ætli ekki að sitja þar nema í tvo mánuði.

Hver er raunveruleg skýring?

Er ekki augljóst hver raunveruleg skýring er? Er hún ekki sú, að innan stjórnarliðsins dettur engum í hug að Steingrímur sé í raun hættur sem leiðtogi VG? Og að þess vegna hafi hann verið auglýstur sem staðgengill forsætisráðherra en ekki menntamálaráðherrann sem fréttamenn kynna þó alltaf sem nýjan formann? Og af sömu ástæðu hafi engum dottið í hug að þau ættu að skipta um sæti á ríkisstjórnarfundum? Fjölmiðlar fá ekki að fylgjast með ríkisstjórnarfundum. Þar þarf ekki að setja neitt á svið. Þar getur Steingrímur setið í formannssæti VG eins og ekkert hafi í skorist og engum viðstöddum finnst neitt óeðlilegt við það.

Fjölmiðlar þegja

Enginn fjölmiðill nema Morgunblaðið virðist skilja hvað þetta allt saman merkir. En hvernig ætli þeir hefðu brugðist við ef annar flokkur stæði svona að málum? Ætli því yrði þá tekið af léttúð að unga konan í formannssætinu gegndi ekki störfum forsætisráðherra heldur væri karlinum, sem áður var formaður, falið það áfram? Ætli þá þætti líka sjálfsagt að unga konan sæti ekki í formannssæti á ríkisstjórnarfundum heldur sæti þar forveri hennar eins og áður? Nei, ætli þetta væri ekki fyrsta frétt Ríkisútvarpsins? Hversu margir kynjafræðingar hefðu verið fengnir til að ræða málið í Víðsjá? „Treystið þið ekki konum?“

Já, menn hefðu átt að hneykslast meira fyrir tveimur mánuðum!

      -greinin birtist í Morgunblaðinu 22.apríl 2013 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er kona á vinstri væng og fannst leiðari Davíðs ómálefnalegur í ljósi þess hve klár og frambærileg Katrín er. Á hinn bóginn, burtséð frá allri praktískri nálgun, hefði Katrín átt að sinna þessu og Steingrímur ætti að hafa vit á því að halda sig alveg til hlés.

Elísabet (IP-tala skráð) 27.4.2013 kl. 15:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband