Hvað skal gera í dellukosningu?

Það fólk sem náði valdastólum í landinu í kjölfar bankaþrots, óeirða og skyndiþingkosninga, hefur alla sína valdatíð haft allt á hornum sér gagnvart öllu sem kallast getur kjölfesta í samfélaginu. Þau hafa lagt til harðrar atlögu gegn grunnstoðum atvinnulífsins, þau grafa undan kirkju og kristindómi eins og þau geta – og feta þannig í fótspor félaga sinna í borgarstjórn Reykjavíkur sem bönnuðu það að börnum væri gefið Nýjatestamentið – en verst af öllu virðist þeim hins vegar vera við stjórnarskrá lýðveldisins, þessa sem 95% landsmanna samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1944 og síðan hefur tekist að halda í eðlilegum takti við tímann án þess að um það hafi nofkkru sinni orðið grundvallarágreiningur.

Almenn samstaða skiptir þau engu

Núverandi stjórnvöldum þykir samstaða um stjórnarskrána einskis virði. Það er eins og þau hugsi sem svo, að fyrst þeim hafi nú loksins skolað inn í stjórnarráðið þá hafi þau þar með fengið allsherjarumboð til að laga gervallt þjóðfélagið að öllum sínum meinlokum, og þurfi þar hvergi að taka tillit til neins annars. Og þar sem stjórnarskráin er grunnstoð samfélagsins þá geta þau auðvitað alls ekki séð hana í friði. Og í þá atlögu ráðamanna hefur nú verið eytt dýrmætum tíma og milljarði króna úr ríkissjóði – á sama tíma og skorið er niður á sjúkrahúsunum og ekki síst á landsbyggðinni, svo dæmi sé tekið um forgangsröð ráðherranna.

Samfelldur skrípaleikur

Það er svo í ætt við annað, að atlagan að stjórnarskránni hefur öll orðið að skrípaleik hjá stjórnvöldum. Þau sögðu mjög mikilvægt að fá stjórnlagaþing til að semja nýja stjórnarskrá, efndu til kosningar til þess þings en þá sýndu landsmenn skoðun sína skýrt í verki þegar 65% þeirra hunsuðu kosninguna. Og þó slík útreið hefði nægt til að koma vitinu fyrir öll venjuleg stjórnvöld, þá bættist nú við að kosningin var með svo hrópandi göllum að Hæstiréttur gat ekki annað en ógilt hana. En núverandi stjórnvöld hlusta hvorki á kjósendur né dómstóla og hafa ekki skilning á neinu nema eigin meinlokum. Og þess vegna er ríkissjóður nú milljarði króna fátækari en hefur í staðinn fengið einhverjar vitlausustu tillögur að stjórnarskrárbreytingum sem lengi hafa sést.

Enn ein skrípakosningin

Og nú skal enn efnt til kosningar, og að þessu sinni um hinar fráleitu tillögur „stjórnlagaráðs“ að nýjum grundvallarlögum Íslendinga. Að vísu á kosningin ekki að hafa neina bindandi þýðingu og augljóst er að ekki var boðað til hennar með löglegum hætti, en stjórnvöld sem gefa ekkert fyrir Hæstarétt láta nú slíkt ekki vefjast fyrir sér. Og hvað eiga kjósendur þá að gera? Auðheyrt er á fólki að flestir andstæðingar hinna vanhugsuðu tillagna hyggjast sitja heima. Allt þetta brölt er í raun áhugamál fámenns en háværs hóps og meirihluti fólks deilir ekki sjónarmiðum hans. Menn vita, að þar sem núverandi stjórnarskrá var samþykkt með 95% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu, myndu sómakær stjórnvöld aldrei reyna að bylta henni, nema við slíkt væri yfirgnæfandi stuðningur í þjóðfélaginu, og þess vegna eru sterk rök fyrir því að sitja heima og láta meinlokumennina eina um sinn skrípaleik.

Gleymum ekki flugvallarkosningunni

Hér er þó að mörgu að hyggja. Eitt sinn efndu borgaryfirvöld til „kosningar“ meðal Reykvíkinga um framtíð flugvallarins í Vatnsmýri, því Reykvíkingar telja flugvallarmálið víst sitt einkamál. Fyrirfram var því lýst yfir hver þátttakan þyrfti að vera svo kosningin teldist bindandi. Það mark náðist engan veginn því yfirgnæfandi meirihluti borgarbúa sat heima. En af því að borgaryfirvöldum líkaði niðurstaða hinna fáu kjósenda, þá lýstu þau eftir á því yfir að niðurstaðan væri „siðferðilega bindandi“. Ekki er vafi á að núvernandi stjórnvöld í landinu munu fara eins að eftir kosninguna um stjórnarskrártillögurnar. Þau treysta því skiljanlega að ekki kjósi aðrir en þeir sem hafa þetta misskilningsmál á heilanum, og ætla sér að nýta slíka fámennisniðurstöðu sem vopn í baráttu sinni gegn stjórnskipan ríkisins.

Hvað er í tillögunum?

Sjálfsagt munu fáir hafa lagt á sig að lesa tillöguflóðið frá fulltrúunum í „stjórnlagaráði“. Ég ætla ekki heldur að leggja það á nokkurn mann að rekja það allt hér. En mig langar til gamans að vekja athygli á tillögu „stjórnlagaráðs“ að nýrri 113. grein en þar er lagt til að standi: „Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarp til breytingar á stjórnarskrá skal það borið undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.“ Og svo heldur áfram „Hafi 5/6 hlutar þingmanna samþykkt frumvarpið getur Alþingi þó ákveðið að fella þjóðaratkvæðagreiðsluna niður og öðlast þá frumvarpið gildi engu að síður.“ Með öðrum orðum, ef 5/6 þingmanna koma sér saman um það, þá mega þeir breyta stjórnarskránni að eigin vild. Þeir gætu til dæmis lengt kjörtímabilið úr fjórum árum í fjörutíu, lagt niður forsetaembættið og falið sjálfum sér allt dómsvald í landinu, svo skemmtileg dæmi séu tekin. Á þessa lund er viskan í tillögum stjórnlagaráðs, sem nú skal efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um.

Og hvað með aukaspurningarnar?

Auk spurningarinnar um tillögur „stjórnlagaráðs“ í heild sinni, þá eiga menn einnig að svara einhvers konar skoðanakönnun um ýmis málefni sem stjórnarþingmenn og álitsgjafar hafa lengi haft á heilanum. En það sýnir svo raunverulegan áhuga stjórnvalda á vilja landsmanna að þess var gætt að spyrja ekki hvort menn vilji að í stjórnarskrá verði leyft að framselja fullveldi Íslands til annarra ríkja eða ríkjasambanda. Þar vilja stjórnvöld alls ekki að vilji Íslendinga komi fram. Þegar menn horfa á þetta allt saman, aðdragandann, vinnubrögðin og svo það um hvað er spurt og um hvað ekki, þá er ekki furða að mörgum þyki réttast að láta sig hafa það að mæta á kjörstað og senda stjórnvöldum verðskuldaða viðurkenningu með því að segja nei við öllu saman, nema já við þjóðkirkjunni.

Greinin birtist í Skessuhorni 10.október 2012


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband