15.2.2011 | 17:25
Spurning til þeirra sem snérist hugur
Hér að neðan er grein eftir mig sem birtist í Morgunblaði dagsins:
Að létta byrðarnar
Eftir að forysta Sjálfstæðisflokksins og meirihluti þingflokks þar með, ákvað skyndilega að styðja Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar, gegn eindreginni ákvörðun eigin landsfundar en við mikla ánægju forystumanna stjórnarflokkanna, hefur farið í gang mikil áróðursherferð. Nú liggur skyndilega lífið við að sannfæra fólk um að í höndum sé glæsileg niðurstaða.
Það sem fyrst og fremst er sagt núverandi Icesave-samningi til ágætis er að hann sé miklu betri en sá síðasti. Það segir meira en mörg orð um ágæti núverandi samnings, að það þarf að bera hann saman við óskapnaðinn þeirra Svavars og Indriða til að sjá hann í jákvæðu ljósi. En þá blasa við augljósar spurningar: Hvað ef fyrri samningur hefði alls ekki verið gerður? Hvað ef núverandi samningur hefði verið gerður í fyrra? Þá gætu menn ekki rökstutt hann með því að hann væri skárri en sá síðasti. Hvaða rök hefðu menn þá fyrir honum? Hvers vegna er verið að miða við samning sem er úr sögunni og enginn maður vildi nema Steingrímur, Svavar og Indriði? Hvað ef menn hefðu allra fyrst gert samning sem hefði verið enn verri en glæsilega niðurstaðan hans Svavars? Hefðu menn þá samþykkt Svavars-samninginn, af því hann hefði verið miklu betri en sá síðasti?
Þegar forysta og meirihluta þingflokks Sjálfstæðisflokksins kynnti stuðning sinn við núverandi Icesave-frumvarp fjármálaráðherra var því haldið fram að nýjasti samningurinn létti byrðarnar. Þá vakna spurningar. Hvaða byrðar? Það er engin ríkisábyrgð á skuldum Landsbankans. Það er vandséð hvernig fjármálaráðherra getur komist að þeirri niðurstöðu að Ísland muni tapa dómsmáli þar sem fjallað væri um það hvort Icesave-reikningarnir séu á ábyrgð skattgreiðenda, þegar sjálf framkvæmdastjórn ESB hefur sýnt fram á að svo sé ekki, sagði Bjarni Benediktsson réttilega í grein í Morgunblaðinu síðasta sumar. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins segjast taka undir með landsfundi hans um að kröfur Breta og Hollendinga séu löglausar. Það hvíla engar byrðar á okkur núna enda þyrfti þá ekkert Icesavefrumvarp. Hvernig getur það létt byrðarnar að leggja að ósekju á borna sem óborna Íslendinga tugi eða hundruð milljarða króna í erlendum gjaldeyri? Hvaða byrðar, sem á okkur hvíla, er verið að létta?
Þeir, sem nú þiggja ómælt hrós vinstriflokkanna fyrir að taka skyndilega þátt í að leggja skuldir einkabanka á íslensku þjóðina, geta þeir verið svo vinsamlegir að svara þessum spurningum?
-Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag 15.febrúar 2011.
Umræða um Icesave hafin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er svo satt og rétt, ég hef allavega gefið Bjarna og hans fylgjendum það að reyna að finna gjaldgeng rök hjá þeim fyrir þessu, en því miður þá er þetta eins og þú lýsir svo vel í innleggi þínu, gersamlega fjarverand, sem ég reyndar velti fyrir mér HÉR.
Takk fyrir gott innlegg í umræðuna Bergþór ! http://www.kjosum.is/
MBKV
KH
Kristján Hilmarsson, 15.2.2011 kl. 18:37
Takk fyrir góða grein Bergþór.
Svona málflutningur sem forysta Sjálfstæðisflokksins notar í nauðvörn sinni, er ekki fólki bjóðandi.
Ef um hótanir frá AGS er að ræða, þá á að upplýsa þjóðina um það. Allir vita að við getum ekki endurgreitt þeim lánið eftir nokkur ár, ekki ef við verðum svo vitlaus að nota það.
Hverju er okkur hótað ef við förum fram á endurfjármögnun???
Af hverju er ekki rætt við þjóðina eins og hún samanstandi af fullorðnu fólki sem hefur sömu dómgreind og það ágæta fólk sem núna er á Alþingi.
Af hverju er ekki allt dregið fram, og það rætt.
Hvað er verið að fela???
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 15.2.2011 kl. 20:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.