Brást umboðsmaður?

Senn líður að því að rannsóknarnefnd alþingis skili áliti sínu á aðdraganda bankaþrotsins árið 2008. Bíða margir í óþreyju eftir því, ekki síst þeir sem vilja koma athygli og ásökunum á þroti bankanna frá þeim sem áttu bankana og stýrðu bönkunum, en yfir á starfsmenn hins opinbera. Slíkir menn hafa nú beðið spenntir í meira en ár, eða allt frá því að ljóst varð að alþingi valdi einkum til athugunar sinnar ágæta menn, en sem sérhæft hafa sig í stjórnsýslurétti og leitinni að mistökum í stjórnsýslunni. Þriðji nefndarmaðurinn lýsti svo yfir opinberlega, áður en nefndarstarfið hófst, að skýringin á bankaþrotinu væri einmitt hjá eftirlitsstofnunum, svo allt lofar þetta góðu.

Í opinberri umræðu hefur verið gert sem mest úr því að „eftirlitsstofnanir“ hafi brugðist, og virðast sumir halda að allt væri enn í lukkunnar velstandi, bara ef skárra fólk hefði starfað hjá „eftirlitsstofnunum“. Ekki þarf svo að efast um að rannsakendur alþingis munu í áliti sínu fara í löngu máli yfir allt sem eftirlitsfólk hefði, eftir á séð, getað gert eða látið ógert í aðdraganda bankaþrotsins.

En hætt er við að ein eftirlitsstofnun ríkisins, og sú sem einna mestar hefur heimildirnar, verði lítt skoðuð að sinni. Samkvæmt lögum nr. 85/1997 um umboðsmann alþingis skal umboðsmaður hafa eftirlit með allri stjórnsýslu ríkisins og gæta þess að hún fari fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Umboðsmaður er ekki bundinn við kvartanir borgaranna heldur getur tekið mál upp að eigin frumkvæði, sjái hann ástæðu til þess. Umboðsmaður hefur afar víðtækar heimildir við eftirlitsstörf sín og getur samkvæmt lögunum „krafið stjórnvöld um þær upplýsingar og skriflegar skýringar sem hann þarfnast vegna starfs síns, þar á meðal getur hann krafist afhendingar á skýrslum, skjölum, bókunum og öllum öðrum gögnum sem mál snerta.” Þá getur hann kallað starfsmenn stjórnsýslunnar á sinn fund og fengið frá þeim upplýsingar og skýringar sem varða einstök mál og á frjálsan aðgang að öllum starfsstöðvum stjórnvalda til athugana í þágu starfs síns.

Það er ótvírætt að umboðsmaður alþingis er ein allra úrræðamesta eftirlitsstofnun landsins. Þó umboðsmaður geti ekki gefið bindandi fyrirmæli um aðgerðir í stjórnsýslunni, og hann veiti aðeins álit en ekki úrskurði, þá ber honum að hafa eftirlit með allri stjórnsýslu, hefur takmarkalitlar heimildir við það eftirlitshlutverk, og getur að fenginni athugun gert stjórnvöldum eða eftir atvikum alþingi, aðvart ef hann telur pott brotinn.

Ekki veit ég hvort embætti umboðsmanns alþingis svaf á verðinum í aðdraganda bankahrunsins. Ég veit ekki hvort ætlast hefði mátt til þess að umboðsmaður hefði beitt eftirlitsheimildum sínum varðandi þá aðila stjórnsýslunnar sem hafa áttu auga með fjármálafyrirtækjum. Vel mætti segja mér að ekkert sé við umboðsmann að sakast, þrátt fyrir eftirlitshlutverk og eftirlitsheimildir hans. En hitt er ljóst, að væntanleg álitsgerð rannsóknarnefndar alþingis mun ekki taka af neinn vafa um það, því að af snilligáfu sinni ákvað alþingi að setja umboðsmann alþingis einmitt í nefndina sem sett var til höfuðs stjórnsýslunni, og „eftirlitsstofnunum“ alveg sérstaklega. Það var óráð, með fullri virðingu fyrir núverandi umboðsmanni alþingis og annáluðum hæfileikum hans við að þefa uppi jafnvel smæstu aðfinnsluefni stjórnsýsluvaldshafa.

     -greinin birtist í Morgunblaðinu 30.janúar 2010.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband