Samfylkingin og Baugur

Það verður ljósara með hverjum deginum að Íslandsbanki var misnotaður í þágu eigenda sinna með þeim hætti að með ólíkindum er.  Misnotaður af eigendum sem allir, með einum eða öðrum hætti, tengjast Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Baugi, skilgetnu afkvæmi Samfylkingarinnar, sem haft hefur auðhringinn undir verndarvæng sínum allar götur síðan formaður Samfylkingarinnar hélt svokallaða Borgarnesræðu 9.febrúar 2003.  

Sífellt kvak álitsgjafa og ,,sérfræðinga“ sem grafnir eru upp, þess efnis að einkavæðing bankanna hafi verið rót hrunsins, þar hafi allt verið gert með öfugum klónum og bankarnir færðir hinum verstu mönnum á silfurfati, verður hjákátlegt þegar í ljós er komið að sá banki sem stjórnmálamenn fengu aldrei að einkavæða, þar sem hann þurfti ekki að einkavæða, var misnotaður jafn illa og raunin er. 

Í dag er grátbroslegt að rifja upp orð formanns Samfylkingarinnar úr Borgarnesræðunni, þar var reitt hátt til höggs og snúist til varnar fyrir auðhringinn.  Um leið og sú undarlega ræða er rifjuð upp er rétt að minna á merkilega grein sem Páll Vilhjálmsson, blaðamaður, skrifaði í mars 2003, þar sem hann greinir undirliggjandi markmið ræðunnar og segir:

„Ef tækist að telja almenningi trú um að Baugur væri í lögreglurannsókn vegna andúðar forsætisráðherra á fyrirtækinu þyrftu forsvarsmenn Baugs ekki að hafa áhyggjur af niðurstöðu lögregluyfirvalda og dómstóla. Sekt þýddi einfaldlega að forsætisráðherra væri búinn að ákveða að svo yrði en sýkna að jafnvel almáttugur Davíð Oddsson gæti ekki komið á kné svo grandvöru og heiðarlegu fyrirtæki sem Baugur er. Hér er meira í húfi en orðstír Davíðs Oddssonar. Ef atlaga Fréttablaðsins heppnast bíður hnekki tiltrú almennings á réttarríkinu. Kaupsýslumönnum á ekki að líðast að hafa stofnanir lýðveldisins og réttkjörin yfirvöld að leiksoppi.“


Skýrsluspuninn

Í hvert sinn sem búist er við skýrslu og áliti rannsóknarnefndar Alþingis, fer í gang spuni í fjölmiðlum. Sá spuni er einfaldur: „Spuninn er byrjaður“, bergmála fjölmiðlamenn og ákafaálitsgjafar, og bæta því við að greinilegt sé að „áhrifamenn“ séu „byrjaðir að grafa undan rannsóknarnefndinni“. Þessi spuni hefur tvennan tilgang. Fjölmiðlamenn, ákafaálitsgjafar  og óðabloggarar vilja ráða opinberri umræðu á Íslandi sem mest. Þeir ætla sjálfum sér að ákveða hvað úr áliti nefndarinnar fái athygli. Þess vegna má ekkert verða til þess fyrirfram að draga úr trú manna á óskeikulleika nefndarmanna. Þess vegna er reynt að bregðast fyrirfram við því ef nefndin, vinna hennar eða niðurstöður, verða gagnrýnd. Það verður þá bara „spuni“ vondra manna. Á dögunum birti meira að segja fréttaþátturinn Spegillinn sérstakt ávarp fréttaritara Ríkisútvarpsins í Lundúnum þessa efnis, og bættist það í röð fleiri ávarpa þess fréttaritara til þjóðarinnar. Einn þáttastjórnandi Ríkisútvarpsins hefur mánuðum saman bloggað utan vinnutíma að niðurstöður nefndarinnar megi ekki verða „hvítþvottur“, og felst í því að þáttastjórnandinn hafi þegar ákveðið hvað rétt sé og rangt, og skuli nefndarmenn eiga hann á fæti ef þeir standi ekki undir kröfum hans. Skilaboðin eru skýr: Ef nefndarmenn áfellast þá sem þáttastjórnandinn hatast við, þá verða þeir lofsungnir fyrir „merkilegt verk“. Annars verða þeir úthrópaðir fyrir hvítþvott. Þegar slíkur söngur hefur verið sunginn mánuðum saman, bæði hjá þessum álitsgjafa og svipuðum, þá er spurning hversu sterk bein nefndarmanna eru, það er að segja þeirra tveggja sem ekki skýrðu frá því opinberlega í upphafi rannsóknar hverjar niðurstöðurnar yrðu, eins og einn nefndarmanna gerði og fréttamenn og álitsgjafar létu sér vel líka - eitt er þó ljóst, eftir opinber skrif þáttarstjórnandans um það hvernig skýrslan eigi að vera er ljóst að útilokað er að hann stýri umræðu um efni hennar á vegnum Ríkisútvarpsins.

„Áætluð“ skil

Af og til birtast fréttamenn og skýra frá því að birting skýrslu nefndarinnar muni enn dragast um svo og svo margar vikur. Er þá gjarnan nefnt í framhjáhlaupi að birtingin hafi verið „áætluð“ fyrsta febrúar. Það er villandi orðalag, sem þó hefur verið notað í mörgum fréttatímum. Birting skýrslunnar var ekkert „áætluð“ um það leyti. Í lögum um nefndina eru einfaldlega skýr fyrirmæli þess efnis að skýrslan skuli birt fyrir lok janúar 2010. Nefndarmenn sjálfir ákváðu hins vegar að fara ekki eftir þeim lagafyrirmælum, án þess að heyrst hafi að sú staðreynd hafi gefið þeim tilefni til að efast um eigið ágæti til að meta störf annarra. En þetta nefna álitsgjafarnir og fréttamennirnir sjaldan. Á þeim bæjum er heitt vonað eftir að nefndarmenn vegi að einhverjum þeirra sem álitsgjafarnir eru á móti, hafa jafnvel rægt árum saman, og meðan sú von lifir, má ekkert verða til þess að draga úr trúverðugleika nefndarmanna. En ef þeir bregðast vonunum, þá verður nú annað uppi á teningnum. Þá verður bloggað fram á nótt: Hvítþvottur, hvítþvottur!

Skyldu draumarnir rætast?

Ekki veit ég hvort draumar ákafra álitsgjafa rætast. Flestir venjulegir menn myndu auðvitað telja augljóst að gjaldþrot einkafyrirtækja væru á ábyrgð stjórnenda eða eigenda einkafyrirtækja en ekki ríkisins. En hvað veit maður. Einn nefndarmanna kenndi starfsmönnum eftirlitsstofnana opinberlega um bankahrunið um leið og hún settist í nefndina til að rannsaka orsakir bankahunsins. (Fréttamenn og álitsgjafar virtust ekki telja þetta valda vanhæfi hennar, og hefði verið gaman að velta fyrir sér hvort þeir hefðu verið sömu skoðunar ef hún hefði lýst gagnstæðum viðhorfum.) Hinir nefndarmennirnir tveir hafa svo sérhæft sig í að leita að mistökum stjórnsýslunnar. Kannski hefur hér fundist nefnd sem gæti látið drauma álitsgjafanna rætast, en því verður ekki trúað fyrirfram.

Á síðasta ári skrifaði þáverandi formaður Viðskiptaráðs merkilega blaðagrein. Þar sagði hann að skýrslunnar væri nú skammt að bíða og væri „mikilvægt að þeir aðilar sem gagnrýni hljóta taki hana til sín og nýti til uppbyggilegra umbóta. Þar gildir einu hvort gagnrýnin snúi að stjórnmálamönnum, embættismönnum, fjölmiðlum, hagsmunasamtökum atvinnulífs eða forystumönnum í viðskiptalífinu.“ Þetta voru óvænt en um leið ánægjuleg viðhorf úr viðskiptalífinu, þar sem álitum opinberra nefnda er yfirleitt mætt af fyllsta mætti og rannsakendum er yfirleitt mætt með lögfræðingaher. Kannski er þetta til marks um ný viðhorf í viðskiptalífinu. En kannski er þetta traust á nefndinni til marks um eitthvað annað.

     -greinin birtist í Morgunblaðinu 3.apríl 2010.


Brást umboðsmaður?

Senn líður að því að rannsóknarnefnd alþingis skili áliti sínu á aðdraganda bankaþrotsins árið 2008. Bíða margir í óþreyju eftir því, ekki síst þeir sem vilja koma athygli og ásökunum á þroti bankanna frá þeim sem áttu bankana og stýrðu bönkunum, en yfir á starfsmenn hins opinbera. Slíkir menn hafa nú beðið spenntir í meira en ár, eða allt frá því að ljóst varð að alþingi valdi einkum til athugunar sinnar ágæta menn, en sem sérhæft hafa sig í stjórnsýslurétti og leitinni að mistökum í stjórnsýslunni. Þriðji nefndarmaðurinn lýsti svo yfir opinberlega, áður en nefndarstarfið hófst, að skýringin á bankaþrotinu væri einmitt hjá eftirlitsstofnunum, svo allt lofar þetta góðu.

Í opinberri umræðu hefur verið gert sem mest úr því að „eftirlitsstofnanir“ hafi brugðist, og virðast sumir halda að allt væri enn í lukkunnar velstandi, bara ef skárra fólk hefði starfað hjá „eftirlitsstofnunum“. Ekki þarf svo að efast um að rannsakendur alþingis munu í áliti sínu fara í löngu máli yfir allt sem eftirlitsfólk hefði, eftir á séð, getað gert eða látið ógert í aðdraganda bankaþrotsins.

En hætt er við að ein eftirlitsstofnun ríkisins, og sú sem einna mestar hefur heimildirnar, verði lítt skoðuð að sinni. Samkvæmt lögum nr. 85/1997 um umboðsmann alþingis skal umboðsmaður hafa eftirlit með allri stjórnsýslu ríkisins og gæta þess að hún fari fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Umboðsmaður er ekki bundinn við kvartanir borgaranna heldur getur tekið mál upp að eigin frumkvæði, sjái hann ástæðu til þess. Umboðsmaður hefur afar víðtækar heimildir við eftirlitsstörf sín og getur samkvæmt lögunum „krafið stjórnvöld um þær upplýsingar og skriflegar skýringar sem hann þarfnast vegna starfs síns, þar á meðal getur hann krafist afhendingar á skýrslum, skjölum, bókunum og öllum öðrum gögnum sem mál snerta.” Þá getur hann kallað starfsmenn stjórnsýslunnar á sinn fund og fengið frá þeim upplýsingar og skýringar sem varða einstök mál og á frjálsan aðgang að öllum starfsstöðvum stjórnvalda til athugana í þágu starfs síns.

Það er ótvírætt að umboðsmaður alþingis er ein allra úrræðamesta eftirlitsstofnun landsins. Þó umboðsmaður geti ekki gefið bindandi fyrirmæli um aðgerðir í stjórnsýslunni, og hann veiti aðeins álit en ekki úrskurði, þá ber honum að hafa eftirlit með allri stjórnsýslu, hefur takmarkalitlar heimildir við það eftirlitshlutverk, og getur að fenginni athugun gert stjórnvöldum eða eftir atvikum alþingi, aðvart ef hann telur pott brotinn.

Ekki veit ég hvort embætti umboðsmanns alþingis svaf á verðinum í aðdraganda bankahrunsins. Ég veit ekki hvort ætlast hefði mátt til þess að umboðsmaður hefði beitt eftirlitsheimildum sínum varðandi þá aðila stjórnsýslunnar sem hafa áttu auga með fjármálafyrirtækjum. Vel mætti segja mér að ekkert sé við umboðsmann að sakast, þrátt fyrir eftirlitshlutverk og eftirlitsheimildir hans. En hitt er ljóst, að væntanleg álitsgerð rannsóknarnefndar alþingis mun ekki taka af neinn vafa um það, því að af snilligáfu sinni ákvað alþingi að setja umboðsmann alþingis einmitt í nefndina sem sett var til höfuðs stjórnsýslunni, og „eftirlitsstofnunum“ alveg sérstaklega. Það var óráð, með fullri virðingu fyrir núverandi umboðsmanni alþingis og annáluðum hæfileikum hans við að þefa uppi jafnvel smæstu aðfinnsluefni stjórnsýsluvaldshafa.

     -greinin birtist í Morgunblaðinu 30.janúar 2010.


Bloggfærslur 8. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband