28.3.2011 | 09:53
Fyrsta JÁ-greiðslan er 26 milljarðar strax
Þeir sem tala fyrir því, að Íslendingar segi já og takk við nýjasta Icesave-samningnum, þess efnis að íslenskur almenningur taki á sig skuldir fallins einkabanka, beita miklum fortölum. Fyrir ári höfðu þeir gert annan slíkan samning, og var hann ekki síður sagður nauðsynlegur og besta mögulega niðurstaða. Þegar forseti Íslands neitaði að staðfesta lög um þann glæsilega samning var því lýst sem einhverju mesta áfalli sem land og þjóð hefði orðið fyrir. Verst lét fréttastofa Ríkisútvarpsins, sem virtist telja efnahagsleg móðuharðindi óhjákvæmileg.
Nú benda sömu fuglar á sinn eigin fyrri samning, sem hafi í raun verið svo vondur að í því felist sérstök röksemd fyrir nýjasta samningnum. Gamli samningurinn var miklu verri, sagði hver já-maðurinn í kapp við annan, þegar alþingi afgreiddi málið í febrúar. Það er himinn og haf á milli, bættu þeir við, bæði þeir sem í tvö ár höfðu beitt ísköldu hagsmunamati til að gæta allra hagsmuna Breta og Hollendinga, sem og þeir sem nú nýverið tóku upp sama hagsmunamat. Fljótlega mun þó hafa runnið upp fyrir þeim flestum, að sá samningur getur ekki verið góður, sem þarf samanburð við óskapnaðinn þeirra Steingríms, Svavars og Indriða til að sjást í jákvæðu ljósi.
Nú er komin fram ný röksemd. Nú er komin upp sú kenning að svo mikið fé muni fást fyrir eigur þrotabús Landsbankans að Íslendingar muni aldrei þurfa að borga nokkurn skapaðan hlut. Þeir bíræfnustu halda því jafnvel fram að íslendingar gætu komið út í plús! Þess vegna sé alveg óhætt að samþykkja kröfur Breta og Hollendinga. Af einhverjum ástæðum eru Íslendingar þó einu mennirnir í dæminu sem ætlað er að taka áhættuna af því hvað kemur fyrir eigur þrotabúsins í fyllingu tímans. Bretum og Hollendingum dettur það ekki í hug. Vonandi verða heimturnar ágætar. En það er bara ekki það aðalatriði sem margir halda. Þar skipta önnur atriði, eins og tímasetning á upphafi greiðslna úr búinu, ekki síður máli.
Strax þarf að borga 26 milljarða
Sumir virðast trúa því, að þrotabúið verði á endanum svo múrað að Íslendingar þurfi ekkert að greiða, jafnvel þótt þeir gangist undir Icesave-klafann. Þar held ég að óskhyggjan hafi tekið völdin. Það er til dæmis svo, að verði Icesave-samningurinn samþykktur þá þurfa Íslendingar þegar í stað að greiða Bretum og Hollendingum 26 milljarða króna, í erlendum gjaldeyri, í þegar áfallna vexti. Mun það koma til viðbótar þeim 20 milljörðum sem tryggingasjóðurinn mun þurfa að greiða á sama tíma. Og þessar upplýsingar koma frá sjálfu íslenska fjármálaráðuneytinu, sem seint verður sakað um að gera of mikið úr þeim álögum sem Icesave-samkomulagið myndi leggja á Íslendinga. Í svari ráðuneytisins til fjárlaganefndar alþingis, sem sent var þinginu í janúar síðastliðnum, segir orðrétt: Gert er ráð fyrir að ríkissjóður þurfi að leggja TIF (Tryggingasjóðnum) til 26,1 mia.kr (milljarða króna) á árinu 2011, þar af 9 mia.kr. vegna áranna 2009-2010 umfram þá 20 mia.kr. sem sjóðurinn getur sjálfur staðið undir.
Hvar á að taka þá?
Menn hafa séð hvernig stjórnvöldum hefur gengið við niðurskurð á liðnum mánuðum. Flestar niðurskurðartillögur hafa verið dregnar til baka eftir hörð mótmæli. Skattar hafa verið hækkaðir svo mjög að vart verður lengra gengið. Á dögunum sagði forsætisráðherra að ekki væri til peningur til að minnka álögur á eldsneyti, þrátt fyrir mikla verðhækkun þess. Á sama tíma virðast stjórnvöld tilbúin til að borga 26 milljarða króna, í erlendum gjaldeyri, til Breta og Hollendinga, sem fyrstu vaxtagreiðslu ofan á ólögvarða kröfu þeirra.
Það hvílir engin lagaskylda á Íslendingum að greiða Icesave-kröfur Breta og Hollendinga. Það er vægast sagt ólíklegt að hlutlaus dómstóll muni dæma sjálfstætt ríki til að greiða kröfur sem hvergi í veröldinni eiga sér lagastoð. Virtir lögmenn hafa fært afar sterk rök fyrir því að áhættulítið sé að treysta á málstað Íslands fyrir hlutlausum dómstólum. Við þær aðstæður ættu kjósendur að hafa í huga, að já í kosningunum 9. apríl kallar þegar í stað á 26 milljarða króna greiðslu til Breta og Hollendinga, auk alls sem á eftir fylgir. Þeir, sem ætla að samþykkja Icesave-ánauðina fyrir sína hönd, okkar allra og komandi kynslóða, ættu að minnsta kosti að láta svo lítið að upplýsa hvaðan þeir hyggjast taka peningana til að standa straum af rausnarskap sínum.
-þessi grein birtist í Morgunblaðinu 21. mars 2011.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)