„Skuldbindingar okkar“ eru ekki til

Frá því forseti Íslands neitaði að staðfesta Icesave-lögin hefur gríðarlegur hræðsluáróður dunið á íslenskum almenningi, sem hafði vogað sér að vilja sjálfur ráða einhverju um það hvort á hann yrðu lagðar óheyrilegar byrðar án dóms og laga. Hræðsluáróðurinn þurfti ekki að standa lengi til þess að stjórnmálamenn misstu kjarkinn og byrjuðu að stama hver á eftir öðrum að auðvitað myndu Íslendingar „standa við skuldbindingar sínar“. Hver segir nú á eftir öðrum að „auðvitað þurfum við að borga“, þó fáir hafi fyrir því að útskýra hvaða „skuldbindingar okkar“ það eru, sem við „verðum að borga“.

Það er ekki von að menn hafi mörg orð um þær „skuldbindingar“. Þær eru nefnilega ekki til. Það hefur aldrei verið nein ríkisábyrgð á Icesave-reikningunum og er ekki enn orðin, þökk sé forseta Íslands. Meira að segja í nýju Icesave-lögunum er tekið fram, að engin skylda hvíli á Íslendingum til að taka að sér að borga skuldir þessa einkabanka. Í 2. gr. laganna segir orðrétt: „Ekkert í lögum þessum felur í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúm Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi.“ Í eldri Icesave-lögum var heldur engin viðurkenning á greiðsluskyldu, heldur þvert á móti tekið fram að ekki hefði verið sýnt fram á hana. Allt tal um að Íslendingar muni ekki „hlaupast frá skuldbindingum sínum“ er tóm fjarstæða, hugsuð til þess að sannfæra landsmenn um að þeir séu orðnir stórskuldugir við erlend ríki og verði að beygja sig undir hvaða glæsisamning sem Steingrímur J. Sigfússon og Svavar Gestsson gera við þau.

Allt er það tóm vitleysa. Rétt eins og það er vitleysa að eldri Icesave-lög, sem öðlast munu gildi þegar þjóðin hefur hafnað nýju ánauðarlögunum, hafi viðurkennt greiðsluskyldu eða veitt ríkisábyrgð á Icesave-skuldum Landsbankans. Þau lög viðurkenna enga greiðsluskyldu og leggja enga ríkisábyrgð á skuldirnar. Þau heimila fjármálaráðherra að gera það, að uppfylltum skilyrðum sem Bretar og Hollendingar hafa hafnað. Ef að Íslendingar hafna Icesave-ánauðarfrumvarpi Steingríms J. Sigfússonar þá er engin ríkisábyrgð fyrir hendi og engar „skuldbindingar okkar“. Ekki frekar en nú.

Enda dettur Bretum og Hollendingum ekki í hug að leggja málið fyrir nokkurn dómstól.

     -greining birtist í Morgunblaðinu í dag, 8.janúar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég er búinn að hamra á þessu nokkuð lengi og einnig benda á annað sándbæt skelfingarspámannanna um "skyldur okkar gagnvart alþjóðasamfélaginu".  Þær eru þá líklegast umfram skyldur "alþjóðasamfélagsins" gagnvart "alþjóðasamfélaginu".

Sándbætið "alþjóðasamfélagið" á reyndar við 27 af 50 evrópuþjóðum, en þetta sándbæt var tekið upp til að þurfa ekki að nefna evrópusambandið, vitandi um megna andstöðu gegn því hér á landi. Eitt snilldarbragð spunameistaranna, eða hitt þó heldur.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.1.2010 kl. 12:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband