Áfram heldur ofstækið

Fátt einkennir núverandi ráðamenn landsins meira en ofstækið sem þeir missa reglulega í dagsljósið. Allt frá fyrsta degi, þegar þeir náðu óvænt völdum í kjölfar skipulagðra óeirða, hefur heiftin verið þeirra helsta eldsneyti. Í upphafi valdatíðarinnar komst þannig ekkert annað að hjá núverandi stjórnarflokkum en að flæma gamlan pólitískan andstæðing úr starfi, af fádæma persónulegri heift. Var þar sleginn tónn sem síðan hefur verið unnið eftir. Nýjasta dæmið er sefasýkin sem upp er komin á vinstribænum yfir ráðningu nýs forstjóra bankasýslu ríkisins. Vinstrimenn froðufella hreinlega yfir ráðningunni, en þó hefur ekki annað komið fram en hún sé nákvæmlega eftir lögum og reglum.

Og hverjar eru reglurnar?

Bankasýslan var stofnuð með sérstökum lögum árið 2009. Það var nú sjálfur Steingrímur J. Sigfússon sem flutti frumvarpið til þeirra laga, svo varla verður það betur gert. Bankasýslunni er ætlað að fara með eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum og samkvæmt lögunum þá skal sérstök þriggja manna stjórn fara með yfirstjórn stofnunarinnar og er tekið fram í lögunum að hún skuli ráða forstjóra bankasýslunnar. Við umræður á alþingi sagði Steingrímur J. Sigfússon að með þessu væru menn „akkúrat að færa málin af hinu pólitíska borði, út úr ráðuneytinu og búa til armslengd á milli stjórnmálanna, framkvæmdarvaldsins og löggjafans þess vegna, og þeirrar framkvæmdar sem þarna á að fara fram“. Í greinargerð með lögunum segir svo, að sú skipan, að stjórnin en ekki stjórnmálamennirnir ráði forstjórann, sé meðal annars gerð „til þess að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar gagnvart ráðuneytinu og til að undirstrika faglegt hlutverk hennar sem umsýsluaðila eignarhluta ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum.” Þegar lögin höfðu verið samþykkt skipaði svo Steingrímur J. Sigfússon sjálfur alla stjórnarmennina, svo varla verður það betur gert.

Ráðningin er lögum samkvæmt

Nú hefur stjórn bankasýslunnar gert það sem lög bjóða. Hún hefur ráðið forstjóra. Hún mun hafa lagt ýmis próf fyrir umsækjendur og leitað ráðgjafa sérfræðinga og að því loknu var það niðurstaða stjórnarinnar að Páll Magnússon bæjarritari í Kópavogi væri hæfasti umsækjandinn. Engar forsendur hef ég til að dæma umsækjendur, en svar stjórnar bankasýslunnar við kröfu fjármálaráðherra um rökstuðning vegna ráðningarinnar  er að því er virðist býsna vel ígrundað og rökstutt. Hitt blasir við, og er meginatriði málsins, að sá aðili, sem lögum samkvæmt á að taka endanlega ákvörðun, tók endanlega ákvörðun, byggða á því sem sá aðili taldi réttast. Og það er einmitt hin rétta leið.

Vinstrimenn froðufella

Þegar stjórn bankasýslunnar sinnti lagaskyldu sinni þá hefur hún líklega gleymt því að við völd eru ofstækisfullir vinstrimenn. Og þeir geta aldrei metið pólitíska andstæðinga öðruvísi en sem pólitíska andstæðinga. Þess vegna vilja þeir núna hnekkja ráðningunni. Páll er ekki þeirra maður. Og það sem verra er, hann var aðstoðarmaður ráðherra sem var ekki heldur þeirra maður. Þess vegna skiptir núna engu hversu ráðningin hafi verið „fagleg“, eða að „óháð nefnd“  hafi metið umsækjendur en ekki ráðherra. Stóryrðin og geðshræringin nú segja allt sem segja þarf um raunverulegt viðhorf vinstrimanna til opinberra embættisveitinga. Þar stjórnast þeir einfaldlega af pólitísku ofstæki, í hvaða búning sem það er klætt hverju sinni.

     -greinin birtist í Morgunblaðinu fyrir helgi.


mbl.is Alþingismenn sinna aðhaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hefur einhverntímann staðið til hjá þessu stjórnarliði að það yrði faglegt mat á einu eða neinu, er þetta ekki eins og í The Animal Farm, Allir skulu vera jafnir, en sumir urðu í reynd jafnari en aðrir?

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 27.10.2011 kl. 07:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband