Vinstrigrænir gera loftárásir

Á hverjum degi undanfarnar vikur berast fréttir af loftárásum sem gerðar eru á Líbíu, í nafni Atlantshafsbandalagsins, Nató. Fljótlega eftir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti að lýsa yfir loftbanni í landinu var tekið að ræða það á alþjóðavettvangi hvort Nató gæti tekið að sér að framfylgja því banni með valdi. Þetta kom ítrekað fram í fréttum, meðal annars hér á landi. Eftir nokkrar umræður var það samþykkt innan Nató. Eins og flestum er kunnugt er Ísland aðili að Nató. Eins og sömu flestum er kunnugt, hefur hvert einasta aðildarríki Nató neitunarvald innan sambandsins. Ísland hefði því getað hindrað allar hernaðaraðgerðir í nafni bandalagsins, en íslensk stjórnvöld kusu að gera það ekki. Íslenskir ráðamenn höfðu nægan tíma til að móta afstöðu landsins til þessa máls.

Ólíkt Íraksstríðinu

Fyrir tæpum áratug réðust Bandaríkin, Bretland, Danmörk, Ástralía, Ítalía og ýmis fleiri lönd inn í Írak og losuðu landið undan ógnarstjórn Saddams Husseins. Sú innrás var ekki gerð í nafni Íslands og ekki í nafni nokkurs bandalags sem landið á aðild að. Íslensk stjórnvöld höfðu hins vegar á sínum tíma látið í ljós þá skoðun, að ef Saddam Hussein færi ekki að samþykktum Sameinuðu þjóðanna þá kynni að koma að því að hann yrði knúinn til þess með valdi. Sú skoðun gerði landið auðvitað ekki að aðila að innrásinni, þótt áróðursmenn hér á landi hafi auðvitað látið eins og Ísland væri ein fremsta innrásarþjóðin. Öðru máli gegnir í Líbíu, en Ísland á beina aðild að því bandalagi sem gerir nú á hverri nóttu loftárásir á landið, og hefur Ísland meira að segja neitunarvald innan bandalagsins.

Hvað með vinstrigræna?

Alþingi hefur enga samþykkt gert vegna loftárásanna á Líbíu. Utanríkismálanefnd þingsins mun ekki einu sinni hafa fjallað um málið áður en íslensk stjórnvöld afréðu að beita sér ekki gegn loftárásunum innan Nató. Vinstrigrænir eiga aðild að ríkisstjórninni en samt láta þeir eins og þeir beri enga ábyrgð á þeirri ákvörðun Íslands að beita sér ekki gegn loftárásunum á Líbíu. Forystumenn vinstrigrænna gefa þá skýringu að utanríkisráðherra fari með málefni Íslands og annarra ríkja. Það er stjórnskipulega rétt, svo langt sem það nær. En hvernig töluðu vinstrigrænir um Íraksstríðið, árum saman? Afstaða Íslands til Íraksstríðsins var mun veigaminni en afstaðan til loftárásanna nú, enda varð Ísland aldrei aðili að innrásinni. Engu að síður hafa vinstrigrænir í bráðum áratug talað um að „tveir menn“ hafi tekið allar ákvarðanir varðandi viðhorf Íslands til Íraksstríðsins. Í því tilfelli virðist vinstrigrænum ekki þykja neinu skipta að utanríkisráðherra fer einn með utanríkismál í ríkisstjórn Íslands.

Hvort velja vinstrigrænir nú?

Vinstrigrænir geta ekki bæði sleppt og haldið. Þeir verða nú að gera annað hvort: viðurkenna að þeir bera í raun ábyrgð á þeirri ákvörðun Íslands að mótmæla hvorki né hindra að Atlantshafsbandalagið, sem Ísland á aðild að, geri loftárásir á fullvalda ríki, eða þá að draga til baka margra ára samfelldar æsingaræður sínar um að tveir menn, utanríkisráðherra og forsætisráðherra, hafi ákveðið afstöðu Íslands til málefna Íraks.

Kokhreystin lifir þó

En kannski þarf ekki að velta svarinu fyrir sér. Hvað er yfirleitt að marka vinstrigræna? Í fjölmiðlamálinu snerust þeir á sveif með hagsmunum auðhrings gegn hagsmunum almennings. Í stjórnarandstöðu eftir bankagjaldþrot töluðu þeir gegn Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en eru nú hans helstu vinnumenn. Fyrir þingkosningar 2009 sögðust þeir vera allra manna harðastir í andstöðunni við Evrópusambandið. Tveimur mánuðum eftir kosningar voru þeir búnir að sækja um aðild. Til að greiða þeirri umsókn leið, börðu þeir Icesave þrívegis í gegnum alþingi. Í stjórnarandstöðu þóttust þeir heilagir í auðindamálum. Í ríkisstjórn horfðu þeir aðgerðalausir upp á Magma færa út kvíarnar. Í stjórnarandstöðu töluðu þeir sig hása um Íraksstríðið, þar sem Ísland var þó aldrei neinn aðili. Er þá ekki viðeigandi að þeir sitji nú í ríkisstjórn sem lætur sér í léttu rúmi liggja þótt bandalag, sem Ísland á aðild að, geri nú samfelldar loftárásir á Líbíu? Er ekki staðreyndin einfaldlega sú, að undir núverandi forystu er trúverðugleiki vinstrigrænna farinn veg allrar veraldar, þótt kokhreystin sé að vísu ósködduð enn?

Greinin birtist áður í Morgunblaðinu.


mbl.is Sprengjum varpað á Trípólí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband